Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1207  —  699. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og lögum um loftslagsmál (geymsla koldíoxíðs).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði fram. Tvær umsagnir bárust, önnur frá Carbfix ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur og hin frá Landsvirkjun.
    Með frumvarpinu er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA til að tryggja fullnægjandi innleiðingu á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu. Þannig er lagt til að í staðinn fyrir hugtakið „niðurdælingu“ sem kveðið er á um í lögunum komi „geymsla“ til að orðalag sé til samræmis við tilskipunina.
    Nefndin hefur fjallað um málið og áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að samræma orðalag við tilskipun ESB og tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar. Það tryggir tengingu við viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og skapar fjárhagslegan hvata til niðurdælingar og geymslu koldíoxíðs með þeim umhverfislega ábata sem af því hlýst.
    Meiri hlutinn leggur til fáeinar viðbótarbreytingar til að tryggja samræmi og leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 6. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „niðurdælingaráætlun“ í 2. mgr. 33. gr. c laganna kemur: heildarmagn koldíoxíðs sem verður dælt niður og geymt.
     2.      8. gr. orðist svo:
                  Í stað orðanna „niðurdælingar koldíoxíðs til varanlegrar geymslu“ í 3. mgr. 33.gr. f laganna kemur: geymslu koldíoxíðs.

    Bjarni Jónsson og Orri Páll Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. júní 2022.

Vilhjálmur Árnason,
form., frsm.
Bjarni Jónsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.